Handbolti

Löwen mun ekki keppa um titilinn í ár

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Löwen-liðið er alltaf að styrkjast undir stjórn Guðmundar. Nordic Photos/Bongarts
Löwen-liðið er alltaf að styrkjast undir stjórn Guðmundar. Nordic Photos/Bongarts

Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Rhein-Neckar Löwen, segir að félagið  sé ekki enn komið á sama stall og Kiel og Hamburg þó svo liðinu hafi tekist að leggja Kiel í vikunni.

"Við erum enn að gera of mörg mistök. Við erum ekki alveg komnir á þann stað sem við viljum vera," sagði Storm sem býst ekki við því að Löwen muni berjast um titilinn á þessari leiktíð.

"Kiel og Hamburg munu berjast um titilinn að þessu sinni. Við viljum samt stríða þeim. Við erum að nálgast og sífellt að styrkjast."

Löwen hefur tekið hvert prófið á fætur öðru á síðustu vikum er það hefur mætt Flensburg, Hamburg og svo Kiel í þrígang.

Liðinu gekk mjög vel framan af í flestum þessara leikja en var að tapa leikjunum undir lokin. Eini sigurleikurinn af þessum var gegn vængbrotnu liði Kiel í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×