Handbolti

Króatar lögðu Svartfellinga í riðli Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andrea Penezic, leikmaður Króatíu, í leiknum í kvöld.
Andrea Penezic, leikmaður Króatíu, í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP

Króatía vann Svartfjallaland í lokaleik B-riðils á EM í handbolta í kvöld, 29-28, og fara því þau þrjú lið sem komust áfram í milliriðlana með tvö stig hvert.

Svartfellingar misstu af gullnu tækifæri í kvöld til að fara með fjögur stig með sér í milliriðlana en þeir komu á óvart með því að leggja heimsmeistara Rússa í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Rússar unnu svo Króata í fyrradag.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum 13-12 fyrir Króata.

Króatar tóku svo öll völd í seinni hálfleik og komust mest í sex marka forystu, 23-17, og þá þrettán mínútur eftir af leiknum.

Svartfellingar fóru mikinn á síðustu tíu mínútum leiksins og komust ansi nálægt því að jafna metin. En dýrmæt færi fór forgörðum og á endanum fögnuðu Króatar sigrinum, vel og innilega.

Andrea Penezic skoraði tíu mörk fyrir Króata og Bojana Popovic ellefu fyrir Svartfellinga.

Rússar, Svartfellingar og Króatar keppa næst í milliriðli í Herning á mánudaginn við þrjú efstu liðin úr A-riðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×