Innlent

Vilja að öllum nauðungarsölum á heimilum verði frestað

Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að frysta tafarlaust eignir og fé í eigu fjármálastofnana til að standa undir skaðabótaábyrgð sem fyrirtækin kunna að hafa skapað sér í tengslum við nauðungarsölur byggðar á húsnæðis- og bílalánum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum en þar segir einnig að þau krefjast þess að „öllum nauðungarsölum á heimilum verði frestað þar til lánveitendur gengistryggðra lána hafa viðurkennt lögbrot sín við útgáfu gengistryggðra lánasamninga og fært innheimtu þeirra úr sjálfsköpuðum jarðvegi lagalegrar óvissu."

„Það er ólíðandi að fólk missi heimili sín á grundvellli lögbrots lánveitenda. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að baráttan fyrir leiðréttingu verðtryggðra lána stendur enn yfir og niðurstaða hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar breytir þar engu um," segir í tilkynningunni.

„Stjórnvöld þurfa einnig að taka til greina að lánasamningar byggðir á verðtryggingu kunna að vera í sömu stöðu í ljósi forsendubrests sem hlotist hefur af markaðsmisnotkun fjármálafyrirtækja.

Á næstu vikum munu bílalánafyrirtækin gefa okkur forsmekkinn að því hvernig bankarnir munu bregðast við (þau eru að mestu í eigu bankanna). Hagsmunasamtök heimilanna telja í ljósi sögunnar, nokkrar líkur á að bílalánafyrirtækin verði sett í gjaldþrotameðferð til þess eins að þurfa ekki að endurgreiða að fullu til viðskiptavina, ofreiknaða vexti auk ólögmætra

verðbreytinga. Stjórnvöld þurfa að sjá við slíkum gjörningum og hugsanlega setja bráðabirgðalög til höfuðs undanbrögðum. Í húfi kunna að vera bæði vörsluskattar og endurgreiðslur til viðskiptavina þessara fyrirtækja."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×