Handbolti

Guðmundur: Landin kannski betri en Hvidt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Niklas Landin.
Niklas Landin.

Daninn Niklas Landin þykir efnilegasti markvörður Dana og þrátt fyrir ungan aldur eru margir sem vilja meina að hann eigi að taka stöðu aðalmarkvarðar danska landsliðsins í stað hins margreynda Kasper Hvidt.

Landin er 21 árs gamall og þekkir íslenski landsliðsþjálfarinn, Guðmundur Guðmundsson, hann vel. Guðmundur er nefnilega þjálfari Landin hjá GOG í Danmörku.

„Jú, hann er vissulega stórkostlegur markvörður en ég ætla nú ekki að láta hann líta of vel út í fjölmiðlum," sagði Guðmundur við Vísi. „En hann er vissulega frábært efni. Eftir að ég kom til GOG hefur hann fengið að spila meira og hefur staðið sig mjög vel."

Guðmundur segir að það kæmi honum ekki á óvart ef hann fengi talsvert að spila á EM. Og jafnvel að hann taki stöðu Hvidt í byrjunarliðinu.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef þeir myndu byrja með Hvidt í markinu og ef hann stendur sig vel heldur hann kannski sæti sínu. En Landin er alveg jafn góður og kannski betri. Hann er þó yngri og reynsluminni en geysilegt efni."

Einn af styrkleikum Landin þykir að hann virðist vera með stáltaugar. „Það er fátt sem kemur honum úr jafnvægi," sagði Guðmundur. „Ég veit líka vel að hann er í mjög góðu formi. Hann er vissulega mjög góður markvörður - en það er Kasper Hvidt líka."

Danir mæta í dag Austurríkismönnum en keppni á EM í handbolta hefst á morgun. Þess má svo geta að vegna fjárhagsvandræða GOG hefur Landin ákveðið að ganga til liðs við Bjerringbro-Silkeborg og fer hann til liðsins strax eftir að EM lýkur í Austurríki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×