Viðskipti innlent

Björgólfur Thor gæti aftur orðið ríkasti maður landsins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson gæti, sem einn ríkasti maður landsins, gengið frá samkomulagi við lánardrottna sína með tugi milljarða króna í vasanum ef áætlanir um vöxt Actavis ganga eftir.

Framtíðaráætlanir um vöxt Actavis samstæðunnar ganga út á að EBITDA, þ.e tekjur samstæðunnar fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði, verði 650 milljónir evra á ársgrundvelli innan fimm ára. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur slíkt tekjumódel verið unnið hjá samstæðunni, en það byggir m.a á væntingum um nokkur samheitalyf sem sett verða á markað hjá fyrirtækinu á næstu árum, t.d mun fyrirtækiðsetja á markað tvö ný samheitalyf í Bandaríkjunum sem miklar væntingar eru bundnar við. Þá er fyrirtækið með 400 verkefni á dagskránni, en það eru lyf í þróun. Ekkert samheitalyfjafyrirtæki í heiminum er með jafn mörg þróunarverkefni, samkvæmt upplýsingum frá Actavis.

Eins og fréttastofa greindi frá á miðvikudag er salan á Actavis þungamiðjan að samkomulagi sem Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, hefur gert við innlenda og erlendra lánardrottna sína.

Í nýlegum fyrirtækjakaupum í lyfjageiranum hefur margföldunarstuðullinn fjórtán sinnum EBITDA verið notaður sem mælikvarði til að finna út verð. Ef áætlanir um rekstur Actavis ganga eftir verður það því níu milljarða evra virði innan fimm ára, ef áætlanir um 650 milljóna evra EBITDA ganga eftir. Samkvæmt samkomulaginu sem Björgólfur Thor gerði mun söluverðmæti umfram fimm milljarða evra skiptast þannig að Deutsche Bank fær 70 prósent og Björgólfur Thor og lykilstjórnendur Actavis þrjátíu, af þessum 30 prósentum er Björgólfur Thor með langstærstan hluta upphæðarinnar, eða 80 prósent. Ef þetta gengur eftir þá gengur hann frá borði með 144 milljarða króna, miðaða við gengi evru núna, eða sem langríkasti maður landsins.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×