Körfubolti

Jón Halldór: Er í þessu til að vinna titla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur.
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Stefán
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, var eðlilega afar sáttur við sitt lið eftir að það varð Lengjubikarmeistari kvenna í körfubolta eftir sigur á KR í úrslitaleik, 101-70.

„Þetta var frábært. Það var kannski smá haustbragur á leiknum en við erum á mjög góðri leið með að ná því fram sem þarf að gera, sérstaklega í sókninni. Við þurfum aðeins að vinna í varnarleiknum en þetta er allt á réttri leið," sagði Jón Halldór.

Sigur Keflvíkinga var öruggur og ljóst að liðið mætir sterkt til leiks í Iceland Express-deildinni í vetur.

„Ég er með frábært lið og ég tel að leikmannahópurinn sé einn sá best mannaði af öllum í deildinni. Það er langt síðan að ég varð Íslandsmeistari og ég er í þessu til að vinna titla."

Hópurinn er lítið breyttur frá því í fyrra og helst að bæst hefur við hann.

„Ég er með tvo nýja leikmenn. Ingibjörg Jakobsdóttir kom úr Grindavík og Hrund Jóhannsdóttir úr Val. Svo er ég að taka inn tvær yngri stelpur sem komu báðar inn á í dag og skoruðu sín fyrstu stig í meistaraflokki. Ég er þar að auki með frábæran útlending [Jacquiline Adamshick]."

„Ég get því ekki annað en verið sáttur enda var þetta frábær leikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×