Innlent

Pétur Blöndal: Skuldarar horfa í naflann á sér

Það var líf í tuskunum á borgarafundi í Iðnó í gær. Talsmaður samtaka lánþega sagði þar mikilvægt að almenningur léti ekki vaða yfir sig á skítugum skónum. Þingmaður sagði skuldara hins vegar horfa í naflann á sér og þeir hefðu misst sjónar á heildarmyndinni.

Opnir Borgarafundir stóðu fyrir vel sóttum borgarafundi í Iðnó í gærkvöld um nýfallna hæstaréttardóma um gengistryggð bílalán.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, tók fyrstur til máls og ræddi enn um þá vexti sem lánin skulu bera eftir dómanna. Þá ræddi Gylfi um höggið sem lent gæti á skattgreiðendum ef leggja þarf bönkunum til nýtt eigið fé vegna þeirra.

Guðmundur Andri Skúlason, frá samtökum lánþega, gagnrýndi að ef til þess kæmi hafi lánin hugsanlega verið færð yfir frá föllnu bönkunum yfir í þá nýju á of háu verði. Hann segir tapið vegna þessa eiga að falla á kröfuhafa bankanna en ekki almenning.

„Mér finnst mikilvægt að við sem almenningur í þessu landi stöndum saman öll sem eitt og látum ekki vaða yfir okkur á skítugum skónum enn eina ferðina," sagði Guðmundur Andri.

Þingmaðurinn Pétur Blöndal tók næstur til máls og sagði mikilvægt að öll óvissuatriði sem eftir væru um gengistryggð lán yrði að leiða til lykta fyrir dómstólum ekki síðar en innan mánaðar. Hann sagði margar hliðar á málinu.

„Ein eru skuldararnir sem mér sýnist að hérna séu í miklum meirihluta, og virðast horfa bara á naflann á sér," sagði Pétur. „Ég ætla bara að segja það hreint út."

„Kjaftæði," hrópuðu þá nokkrir fundargestir að Pétri sem svaraði um hæl: „Hafið þið hugleitt hvernig sparifjáreigendur hugsa? Hvað fólkið er að segja við mig í síma? Nei - það er drulluhrætt."

Lilja Mósesdóttir þingmaður tók síðust til máls og gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að grípa til sértækra aðgerða í þágu skuldara, í stað almennra. Þá mæltist hún til þess að þak yrði sett á verðtryggingu. Að framsögum loknum var tekið við fyrirspurnum og spunnust við það nokkrar umræður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×