Innlent

Innflutningur á vörum verði bannaður ef þær eru unnar í barnaþrælkun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Magnússon segir að skoða þurfi hvaða lagaúrræði eru þegar til staðar til að fást við málið.
Gylfi Magnússon segir að skoða þurfi hvaða lagaúrræði eru þegar til staðar til að fást við málið.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra telur rök vera fyrir því að banna innflutning á vörum sem framleiddar eru með barnaþrælkun.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis fjallaði í gær um þátt sem var sýndur á sjónvarpsstöðinni DR 2 í Danmörku. Í þættinum var fjallað um að afrísk börn eru seld mansali til Fílabeinsstrandarinnar þar sem þau eru svo látin þræla við framleiðslu á kakói. Börnin eru allt niður í átta ára að aldri.

Kakóið er svo selt til fyrirtækja í efnameiri ríkjum. Miðað við það sem fram kom í danska sjónvarpsþættinum er Nestle fyrirtækið líklegast þekktasta dæmið um fyrirtæki sem kaupir kakó sem unnið hefur verið af börnum. Finnur Geirsson, forstjóri Nóa & Síríus, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að þeir birgjar sem fyrirtækið ætti viðskipti við byggði framleiðslu sína ekki á barnaþrælkun. Hann hefði áhyggjur af málinu því að svona lagað ætti ekki að líðast.

Gylfi Magnússon segist ekki hafa kannað málið sérstaklega í tengslum við þennan sjónvarpsþátt. „Augljóslega eru málefnaleg rök fyrir því að banna innflutning á vörum sem eru framleiddar með aðferðum sem við teljum engan veginn við hæfi. Ég held að það sé nú enginn ágreiningur um það hér innanlands," segir Gylfi. Hann segir að athuga þurfi að hvaða marki núverandi löggjöf dugi til þess að taka á svona málum.








Tengdar fréttir

Börnum þrælað út í kakóframleiðslu

Næstum helmingurinn af kakói sem framleitt er í heiminum er unnið í barnaþrælkun á Fílabeinsströndinni. Þar er börnum þrælað út, allt niður í átta ára að aldri. Börnunum er í sumum tilfellum smyglað frá nærliggjandi löndum eins og Malí inn í Fílabeinsströndina. Þar er 40% af öllu kakói í heiminum framleitt og selt áfram til heimskunnra fyrirtækja á borð við Nestlé og Mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×