Innlent

Samgönguráðuneytið fór ekki að lögum vegna tölvumála á Akranesi

Umboðsmaður Alþingis hefur gefið út álit um að samgönguráðuneytið hafi ekki farið að lögum hvað varðar úrskurð þess að tölvuþjónusta Akraness var ekki boðin út árið 2008.

Áður hafði Kærunefnd útboðsmála gefið út það álit að bærinn hefði brotið lög, en hafði ekki heimild til þess að ógilda samning sem þegar hafði verið gerður. Þáverandi bæjarstjóri Akraness, Gísli S. Einarsson, hafnaði því alfarið að um einhverskonar lögbrot væri að ræða.

Ástæðan fyrir því að málið var sent til umboðsmanns Alþingis er sú að Akraneskaupstaður samdi á síðasta ári við fyrirtækið Securstore um tölvuþjónustu án útboðs.

Þetta þótti nokkuð umdeilt þar sem fyrirtækinu er stýrt af og er að hluta í eigu Arnars Gunnarssonar, en hann er sonur Gunnar Sigurðssonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Akraness.

Til stóð að bjóða út verkið en meirihlutinn hætti við og samdi við Securestore. Í kjölfarið kvörtuðu bæjarfulltrúar minnihlutans til samgönguráðuneytis og vildu að ráðuneytið úrskurðaði úr um hæfi einstakra bæjarfulltrúa í málinu, það er að segja Gunnars, þá vildu þau einnig að ráðuneytið kannaði hvort ekki væri réttast að bjóða verkið út.

Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að bjóða verkið út. Aftur á móti tók ráðuneytið ekki afstöðu til hæfis Gunnars.

Í niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis kemur fram að samgönguráðuneytið hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög varðandi rannsóknarreglur.

Að lokum beinir Umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til samgönguráðuneytis að það taki málið til endurskoðunar og fylgi sjónarmiðunum sem finna má í áliti Umboðsmanns Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×