Innlent

Siðareglur samþykktar í Hafnarfirði

Mynd/GVA
Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt siðareglur starfsmanna bæjarfélagsins en markmiðið er að skilgreina hátterni og viðmót þeirra. Í reglunum er meðal annars kveðið á um að starfsmönnum sé óheimilt að þiggja og/eða sækjast eftir gjöfum, boðsferðum eða fjármunum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum nema að um sé að ræða óverulegar gjafir eða verðmæti.

Siðareglurnar eru settar fram sem almennar viðmiðunarreglur um góða háttsemi sem allir starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar ættu að hafa að leiðarljósi í störfum sínum auk þess að vera leiðbeiningar um það hvernig skuli brugðist við þegar siðferðileg álitamál koma upp í störfum starfsmanna. Reglurnar eru ekki tæmandi og koma ekki í stað lagareglna sem gilda um störf starfsmanna eða reglna sem fjalla um fagskyldur einstakra starfsstétta hjá bænum. Ekkert er því til fyrirstöðu að einstaka svið eða stofnanir setji sér með ítarlegri hætti sérstakar starfs- eða siðareglur enda eru aðstæður mismunandi á hverjum stað.

Siðareglurnar voru unnar á starfsmannaskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar að höfðu samráði við stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar en í mannauðsstefnu Hafnarfjarðarbæjar er gert ráð fyrir að bærinn setji sér siðareglur. Leitað var fanga hjá öðrum opinberum stofnunum, sveitarfélögum og víðar við gerð reglnanna. Þær voru kynntar í bæjarráði í síðustu viku og í kjölfarið staðfestar af Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×