Innlent

Kindur af öskusvæðunum með sterka heimþrá

Kindurnar langar heim.
Kindurnar langar heim.

Kindurnar sem fluttu voru úr öskufallinu frá Eyjafjallajökli og austur í Skaftárhrepp hafa svo sterka heimþrá að þær leggjast til sunds yfir stórfljótin Skaftá og Kúðafljót og reyna að brjótast í gegnum girðingar.

Svona hegða þær sér, kindur Eyfellinga og Mýrdælinga í nýju sumarhögunum í Meðallandi. Þær húka við girðinguna og pípuhliðið, sem lokar þær af í svæði Landgræðslunnar, en þarna er ein af fjórum jörðum sem 4.500 kindur af gossvæðinu fengu til afnota.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, bóndi og ráðunautur á Kirkjubæjarklaustri, segir að kindurnar leiti ákveðið í vesturátt, þannig að þær vita í hvaða átt þær eiga heima. Þær séu ekki áttavilltar. Það sé þekkt að sauðfé leiti í sína eigin sumarhaga.

Hluti fjárins var á jörðinni Nýjabæ við Kirkjubæjarklaustur en þar tóku kindur upp á því að synda yfir Skaftá. Annað stórfljót sem kindurnar hafa reynt að komast yfir er sjálft Kúðafljót en þar hafa þær sést ramba á áreyrum.

Hindranir eins og stórfljót og girðingar duga ekki til að varna því að sumar komist sína leið. Fanney Ólöf segir að þær muni væntanlega skila sér af heiðinni í haust.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×