Innlent

Umboðsmaður krefur LÍN svara

Umboðsmaður Alþingis hefur sent Lánasjóði Íslenskra námsmanna fyrirspurn vegna innheimtuaðgerða sjóðsins. Sjóðurinn stefndi skuldara og ábyrgðarmanni hans, þrátt fyrir að maðurinn hefði fengið úrskurð um heimild til greiðsluaðlögunar.

Fréttastofa sagði frá máli Gunnars Kristins Þórðarsonar undir lok maí. Lánasjóður íslenskra námsmanna gaf út stefnu á hendur Gunnari og ábyrgðarmanni lánsins, föður hans þann 29. apríl síðastliðinn vegna vanskila. Daginn eftir var manninum veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Í tölvupósti sem LÍN sendi manninum kemur fram að sjóðurinn stefni ekki skuldurum í greiðsluaðlögun. Þar sem stefnan var gefin út daginn áður en heimild til greiðsluaðlögunar var veitt vildi sjóðurinn þó ekki draga stefnuna til baka. Sjóðurinn bauð manninum þó að óska eftir frestun málsins við þingfestingu þess í upphafi mánaðar.

Gunnar kvartaði undan þessum innheimtuaðgerðum við Umboðsmann Alþingis, meðal annars á þeim forsendum að þó stefnan hafi verið gefin út áður en honum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar, hafi hún verið birt honum eftir það. Málið hafi hafist með birtingu stefnunnar, en ekki útgáfu hennar.

Umboðsmaður Alþingis hefur nú aðhafst í málinu og sent sjóðnum fyrirspurn vegna málsins, sem fréttastofa hefur undir höndum. Þar óskar hann upplýsinga um hvenær stefnan var birt og hvernig það geti samræmst fyrrnefndum verklagsreglum sjóðsins að birta skuldara stefnu eftir að hann hefur fengið heimild til greiðsluaðlögunar.

Haraldur Guðni Eiðsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir í samtali við fréttastofu að sjóðnum hafi verið veittur frestur til svars vegna sumarleyfa, en gerir ráð fyrir að svör verði send í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×