Innlent

Erkiengill hefur engin svör fengið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leif Ivar Kristiansen er leiðtogi norskra Vítisengla.
Leif Ivar Kristiansen er leiðtogi norskra Vítisengla.
Leif Ivar Kristiansen, leiðtogi norskra Vítisengla, hefur enn engin svör fengið við kæru sem send var dómsmálaráðuneytinu eftir að Útlendingastofnun vísaði honum úr landi, samkvæmt heimildum Vísis.

Kristiansen var handtekinn í Leifsstöð við komuna til landsins í byrjun febrúar. Hann var sendur aftur til Noregs daginn eftir. Kristiansen var í samfloti með Morten Furuholmen, lögmanni sínum, við komuna til Íslands. Furuholmen dvaldi á hóteli á Suðurnesjum á meðan að Kristiansen dvaldi í varðhaldi eftir komuna til landsins.

Nokkrum dögum síðar kærði Kristiansen brottvísunina til dóms- og mannréttindaráðuneytisins og bíður hann enn eftir því hvort ráðuneytið muni staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar. Geri ráðuneytið það getur Kristiansen stefnt íslenska ríkinu.

Af Furuholmen lögmanni er það svo að frétta að þann 21. maí síðastliðinn var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að aðstoða mann við að innheimta fé sem dómstóll í Noregi taldi fullvíst að hann hafi átt að vita að væru illa fengnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×