Innlent

Vegtollar lækki bensíngjald

Árni Þór vonast til að í framtíðinni muni mismunandi veggjald eftir álagstímum minnka umferðarteppur. fréttablaðið/gva
Árni Þór vonast til að í framtíðinni muni mismunandi veggjald eftir álagstímum minnka umferðarteppur. fréttablaðið/gva
Nefnd fjögurra stjórnmálaflokka hefur velt upp þeim möguleika að setja vegtolla á þrjár stofnleiðir inn í höfuðborgina. Engar ákvarðanir hafa verið teknar.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, situr í nefndinni. Hann segir vel koma til greina að breyta tekjuöflun í samgöngumálum og notendagjöld komi að einhverju leyti í stað bensín- og olíugjalda. Þeir vegtollar rynnu í samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, mannvirki og almenningssamgöngur.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við Vísi í gær að um landsbyggðarskatt yrði að ræða. Þessu er Árni Þór algjörlega ósammála. „Auðvitað fara Reykvíkingar líka út fyrir borgarmörkin og þetta er ekki sérstakur landsbyggðarskattur.

Árni segir að í framtíðinni gæti kerfið orðið þannig að bensín- og olíugjöld hyrfu alveg. Umferð bíla yrði mæld með gps-kubbum og rukkað mismunandi eftir álagstímum og þungum gatnamótum, þannig myndi umferðin dreifast. „Þetta gæti því frekar lagst þyngra á þéttbýlisbúa, þar sem umferðin er meiri, en dreifbýlisbúa.“

Starfshópurinn sem um ræðir er óformlegur, en var skipaður af samgönguráðherra, Kristjáni Möller, í febrúar. Hans er að fara yfir hugmyndir að veggjöldum.- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×