Viðskipti innlent

Færðu húsin í félög rétt eftir hrun

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Bakkabræður, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, færðu einbýlishús sín, íbúðir og sumarbústaði í sérstök einkahlutafélög rétt eftir bankahrunið. Með þessu móti geta hugsanlegir kröfuhafar þeirra ekki gengið að þessum eignum.

Hinn 22. október 2008, réttum tveimur vikum eftir bankahrunið, færðu bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir einbýlishús sín og íbúðir í Reykjavík og sumarbústaði á Þingvöllum af eigin kennitölum og í sérstök einkahlutafélög í sinni eigu, GT1 og GT2.

Í tilviki Lýðs er um að ræða 330 fermetra einbýlishús í Vesturbænum og tæplega 60 fermetra íbúð á svipuðum stað sem hann færði af eigin nafni og á einkahlutafélag í sinni eigu sem heitir GT1.

Ágúst bróðir hans færði 150 fermetra íbúð í miðbænum með þremur bílskúrum, tvö sumarhús á Þingvöllum og sumarbústaðaland í Jórugili af eigin kennitölu og á félag sitt GT2.

Ekki náðist í bræðurna í dag til að fá skýringu því hvers vegna eignirnar voru færðar í sérstök einkahlutafélög. Það má geta þess að með því að færa eignirnar í einkahlutafélög eru þær ekki aðgengilegar kröfuhöfum bræðranna.

Hinn 22. október á þessu ári verða liðin meira en tvö ár frá því eignirnar voru færðar og því útilokað að rifta samningum eða afsölum vegna þeirra á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti má rifta samningum í allt að tvö ár aftur í tímann fyrir gjaldþrot, ef skilyrði laganna eru uppfyllt.

Þrátt fyrir að hafa fært íbúðir sínar og einbýlishús í einkahlutafélög eru bræðurnir þó enn skráðir eigendur sumarhallarinnar við Lambalæk í Fljótshlíð í Rangárþingi eystra. Um er að ræða tæplega 600 fermetra orlofssetur sem bræðurnir eiga saman til helminga.



















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×