Sport

Moyes vill koma Everton aftur á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Moyes, stjóri Everton, segir að sigur á Sunderland í kvöld geti komið liðinu á rétta braut í ensku úrvalsdeildinni.

Everton hefur ekki unnið sigur í síðustu þremur deildarleikjum og er sem stendur í sextánda sæti deildarinnar með fimmtán stig. Liðið byrjaði einnig skelfilega á leiktíðinni og var í neðsta sæti í lok september.

Everton tapaði fyrir Arsenal fyrir rúmri viku síðan, eftir að hafa gert jafntefli við Bolton og Blackpool þar á undan. „Við vorum ekkert sérstakir í þeim leik en höfðum verið á ágætum spretti. Það voru fyrst og fremst vonbrigði að fá ekki meira úr leikjunum gegn Blackpool og Bolton."

Leikmenn Sunderland eru með mikið sjálfstraust eftir 3-0 útisigur á Chelsea um síðustu helgi. Það var mikil sárabót eftir að hafa tapað fyrir erkifendunum í Newcastle, 5-1, fyrr á tímabilinu.

„Þeir hafa brugðist vel við því tapi og er komnir á gott ról núna," sagði Moyes. Leikurinn hefst klukkan 20.00 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×