Innlent

Hundruð milljóna horfnar

Hundruð milljóna króna hafa horfið út af reikningum Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra Eimskips, á síðustu misserum. Búið er að krefjast kyrrsetningar á eigum hans og Steingríms Péturssonar, viðskiptafélaga hans, en báðir sæta þeir skattrannsókn.

Skattrannsóknarstjóri krafðist nú fyrir helgi að eignir tveggja manna yrðu kyrrsettar vegna ríflega hundrað milljóna króna skattakröfu á hendur þeim. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þetta Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri Eimskips og Steingrímur Pétursson, viðskiptafélagi hans. Þeir félagar eiga meðal annars Sjöfn sem lengi vel einbeitti sér að því að selja málningu. Hlutverk og stefna félagsins breyttist þó og varð fjárfestingarfyrirtæki sem fjárfesti í óskráðum félögum og fasteignum.

Þá var Baldur einnig áberandi sem forstjóri Eimskipafélags Íslands en Baldur tapaði dómsmáli þar sem hann krafðist 140 milljóna króna starfslokagreiðslu þrátt fyrir milljarða tap félagsins undir hans stjórn.

Skattrannsóknarstjóri sagði í fréttum okkar í gær að það hefði þurft að kyrrsetja eigur auðmanna fyrr til að koma í veg fyrir að þeir kæmu þeim undan. „Þetta hefur verið að gerast fyrir framan á nefið á okkur. Það tæmast bara reikningar," segir Stefán Skjaldarson, skattrannsóknarstjóri.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa hundruð milljóna króna horfið út af reikningum Baldurs á síðustu misserum. Þá flutti Baldur fjórar fasteignir, meðal annars einbýlishús á Akureyri þar sem hann er nú búsettur, af eigin nafni yfir í félagið BÖG árið 2008. Félagið er að fullu í hans eigu en möguleiki er fyrir hendi að krefjast kyrrsetningar á eignarhlutum manna í félögum.

Ekki náðist í Baldur í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×