Handbolti

Rakel Dögg: Stefnum enn á að komast áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir landsliðsfyrirliði á von á því að leikmenn Íslands munu mæta vel stemmdir til leiksins gegn Svartfellingum á EM í handbolta í dag þrátt fyrir erfiða byrjun á mótinu.

Ísland tapaði á þriðjudagskvöldið fyrir Króatíu og mæta í dag öflugu liði Svartfjallalands sem lagði heimsmeistara Rússa í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

„Það var þungt í okkur eftir leikinn og áttu margir erfitt með svefn," sagði Rakel þegar Vísir hitti á hana í gær.

„Það þarf því að rífa þetta upp og það var byrjað á því með fundi í morgun. Ég hef ekki áhyggjur af því að stemningin verði ekki í lagi. Hún hefur verið mikil og góð hingað til og við munum ná henni aftur upp."

„Við eigum miklu meira inni. Það var of stórt að tapa með tíu marka mun. Við vorum mikið búnar að einblína á þennan leik, gegn Króatíu, og þetta fer allt saman í reynslubankann. Við eigum þó að njóta þess að spila á þessu móti og við eigum enn tvo leiki eftir. Við stefnum enn á að komast áfram þó svo að það verði erfitt."

„Leikurinn gegn Svartfjallalandi verður erfiður. Besti leikmaður heims [Bojana Popovic] er í liðinu og mikið af öðrum sterkum leikmönnum. Við þurfum að reyna að hugsa betur um okkur sjálfa en ekki andstæðinginn. Við þurfum að hugsa um það sem við getum gert vel."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×