Viðskipti innlent

Ríkið gæti tapað milljörðum á Sjóvá

Íslenska ríkið mun hugsanlega tapa miklum fjármunum á sölu Sjóvár, ef ekki fæst rétt verð fyrir fyrirtækið. Ríkissjóður á rúmlega sjötíu prósenta hlut í Sjóvá sem hefur verið í söluferli í nokkra mánuði. Nú stendur einn fjárfestahópur eftir og er söluferlið á lokasprettinum.

Til að tryggja rekstrargrundvöll tryggingafélagsins Sjóvár eftir að móðurfélag þess fór í þrot lögðu ríkissjóður, skilanefnd Glitnis og Íslandsbanki félaginu til sextán milljarða króna, en þar af átti ríkissjóður tólf milljarða.

Sjóvá hefur nú verið í söluferli í nokkra mánuði og er nú svo komið að aðeins einn tilboðsgjafi stendur eftir. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, vildi í samtali við fréttastofu ekki gefa upp hver það væri en DV greindi frá því að um væri að ræða Heiðar Má Guðjónsson hagfræðing, en hann var áður náinn samstarfsmaður Björgólfs Thor Björgólfssonar hjá Novator.

Heiðar Már hefur undanfarið ár starfað hjá vogunarsjóði í Sviss. Samkvæmt heimildum fréttastofu er mjög ósennilegt að Heiðar Már hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa að kaupunum einn en hann er sagður í samstarfi við aðra fjárfesta. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er Björgólfur Thor ekki á meðal þeirra. Svo má til gamans geta að Heiðar Már er tengdasonur Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og var meðal álitsgjafa í kvikmyndinni Draumalandið sem byggð var á samnefndri bók þar sem hann varaði við stórframkvæmdum á þenslutímum, en hann var andvígur Kárahnjúkavirkjun.

Árni Tómasson sagði í samtali við fréttastofu að væntanlegur kaupandi væri að framkvæma áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu í dag og niðurstaða lægi ekki fyrir fyrr en þeirri vinnu væri lokið. Árni sagði að til þess að ríkissjóður kæmi skaðlaus frá eignarhaldi sínu á Sjóvá þyrftu að minnsta kosti sextán milljarðar króna að fást fyrir fyrirtækið í söluferlinu. Árni vill ekkert gefa upp um verð en fari svo að tveir þriðju þeirrar upphæðar fáist tapar ríkissjóður rúmlega fjórum milljörðum króna miðað við fjármuni sem hann lagði fyrirtækinu til.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×