Handbolti

Harpa Sif: Eigum vopn gegn Svartfellingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
„Það er auðvitað mjög erfitt að kyngja þessu tapi en við erum samt bjartsýnar því við eigum svo mikið inni," sagði landsliðskonan Harpa Sif Eyjólfsdóttir við Vísi.

Ísland tapaði fyrir Króatíu, 35-25, í fyrsta leik riðlakeppninnar á EM í Danmörku og Noregi. Í dag á liðið leik gegn Svartfjallalandi sem lagði heimsmeistara Rússa í gær.

„Við getum alltaf bætt okkur og munum alltaf berjast til leiksloka. Það gekk margt ágætlega í gær og vorum við að spila ágætlega inn á línu og í hornin í gær. Við þurfum því kannski að stilla betur upp í sóknarleiknum og gefa okkur betri tíma til að finna gatið í vörninni. Við finnum það á endanum," sagði Harpa.

Hún segir að þó svo að Rússarnir hafi átt í vandræðum með að skora mikið gegn Svartfellingum búi íslenska liðið yfir ýmsum kostum sem gæti komið sér vel í dag.

„Rússarnir eru mjög þungir en við erum með miklu minni, léttari og hraðari leikmenn. Við gætum því kannski nýtt okkur betur það sem Rússarnir gátu ekki. Við munum allavega halda ótrauðar áfram."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×