Viðskipti innlent

Hugmyndir um stækkun ekki lagðar til hliðar

Markmiðið er að auka framleiðslu úr 189 þúsund tonnum í 220 þúsund tonn með uppfærslu á straumleiðurum og öðrum búnaði álversins. Þetta var tilkynnt í dag.
Markmiðið er að auka framleiðslu úr 189 þúsund tonnum í 220 þúsund tonn með uppfærslu á straumleiðurum og öðrum búnaði álversins. Þetta var tilkynnt í dag.
Rúmlega 40 milljörðum króna verður varið í að auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík um fimmtung á næstu tveimur árum. Framkvæmdin kallar á 470 ársverk. Forstjóri Alcan á Íslandi segir að með þessu sé ekki búið að leggja til hliðar hugmyndir um stækkun.

Verkefnið hefur verið tvö ár í undirbúningi en áætlað er að framkvæmdum ljúkí í árslok 2012. Markmiðið er að auka framleiðslu úr 189 þúsund tonnum í 220 þúsund tonn með uppfærslu á straumleiðurum og öðrum búnaði álversins. Því er ekki verið að stækka álverið heldur fyrst og fremst endurnýja búnað.

„Þetta hefur heilmikla þýðingu vegna þess að við getum aukið framleiðsluna um 20 prósent. Við getum bætt útblástursvarnirnar og svo líka tryggir þetta rekstraröryggi núverandi verksmiðju," segir Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi.

Nýr raforkusamningur við Landsvirkjun til ársins 2036 gerir verkefnið mögulegt en samningurinn var staðfestur fyrr í þessari viku. Samningurinn tryggir álverinu viðbótarorku upp á 75 megavött

„Landsvirkjun tekur fulla ábyrgð á því að geta staðið við sitt og við höfum fulla trú á því að það gangi allt eftir," segir Rannveig. „Þess má geta að orkan kemur. Við þurfum ekki að fá afhenta orku fyrr en 2012 og þurfum ekki að fá alla orkuna fyrr en 2014 þannig að það er dálítill tími til stefnu."

Yfir 360 manns munu vinna við framkvæmdirnar þegar þær ná hámarki í lok næsta árs en alls kalla þær á 470 ársverk.

Þessi leið varð fyrir valinu eftir að íbúar Hafnarfjarðar höfnuðu stækkun álversins í íbúakosningum árið 2007. Rannveig segir að með þessu sé ekki verið að leggja stækkunarhugmyndir til hliðar.

„Við getum ekki sett vinnu í eitthvað annað upp á von og óvon. Það var fellt í kosningum og við vikum okkur þess vegna að öðru og þessi erfiða flókna framkvæmd er komin út úr því og við munum einbeita okkur að henni en hinn kosturinn er og var góður."


Tengdar fréttir

Álverið í Straumsvík stóreykur framleiðslugetu sína

Rio Tinto Alcan mun verja 347 milljónum dollara, eða sem nemur 40,6 milljörðum íslenskra króna, til að uppfæra búnað og auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík í kjölfar þess að endanlega hefur verið gengið frá nýjum raforkusamningi við Landsvirkjun sem samkomulag tókst um fyrr á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×