Innlent

Ekkert samráð verið haft um skattamál

Starfshópur fjármálaráðherra um breytingar á skattkerfinu hefur ekki enn hitt samráðshóp hagsmunaaðila um málið, þrátt fyrir að hafa verið starfandi í tvo mánuði. Hópurinn á að skila áfangaskýrslu eftir rúmar þrjár vikur, 15. júlí.

Hópurinn var skipaður 19. apríl og skal hann móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu. Allir fulltrúar voru ráðherraskipaðir og Maríanna Jónasdóttir, starfsmaður fjármálaráðuneytisins, veitir honum formennsku. Þá starfar Indriði H. Þorláksson með hópnum.

Samhliða starfshópnum skyldi skipuð samráðsnefnd með fulltrúum vinnumarkaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fjármálafyrirtækja og þingflokkum allra flokka sem yrði vettvangur upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta fyrir starfshópinn.

Samtök atvinnulífsins (SA) skipuðu fulltrúa í hópinn fyrir nokkru. Vilhjálmur Egilsson, formaður samtakanna, segir enga fundi hafa verið boðaða. „Þetta hljómar eins og menn séu búnir að ákveða hvað lagt verður til," segir hann og óttast að lítið samráð verði haft. Önnur samtök hafa einnig tilnefnt sína fulltrúa. ASÍ dró sinn mann úr nefndinni fyrir allnokkru.

Einn heimildarmanna blaðsins sagði hagsmunaaðila hafa sóst árangurslaust eftir fundi frá miðjum maí.

„Við höfum ekki enn hitt samráðshópinn enda ýmsir ekki enn búnir að skipa sína fulltrúa í hann," segir Hrannar B. Arnarsson, fulltrúi forsætisráðherra í hópnum. Hann segist eiga von á því að allt verði klárt í næstu viku og þetta komi ekki niður á starfinu. Ekki náðist í formann starfshópsins við vinnslu fréttarinnar.

„Ég man ekki eftir að hafa fengið erindi um að tilnefna í hópinn," segir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Hann segist hafa ádrátt um að erindið hafi verið sent Siv Friðleifsdóttur, en það ekki borist henni. Siv hætti sem þingflokksformaður fyrir rúmu ári. Gunnar Bragi segir að þingflokkurinn muni tilnefna sinn fulltrúa þegar þing kemur saman á fimmtudag.- kóp, jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×