Innlent

Hreinsunarstarf gengur vel í Vík - áfram öskufall í Eyjum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rösklega áttatiu manns tóku þátt í hreinsunarstarfi við Vík í Mýrdal í dag eftir mikið öskufall þar í liðinni viku. Guðmundur Ingi Ingason, yfirmaður þjónustumiðstöðvar almannavarna, segir að fólkið sem taki þátt í vinnunni koma víða að af landinu og úr ólíkum þjóðfélagshópum. Stórfenglegt sé að sjá samhuginn í fólki. Hann segir að hreinsunarstarfið hafi gengið mjög vel enda sé veður með besta móti. Hreinsunarstarfinu verði haldið áfram á morgun og þegar hafi tugir manna skráð sig til þátttöku.



Áfram öskufall í Vestmannaeyjum


Frá almannavarnanefnd Vestmannaeyja berast þær fréttir að þar sem spáð sé áframhaldandi norð- og norðaustlægum áttum um helgina séu líkur á áframhaldandi öskufalli í Vestmannaeyjum frá eldsumbrotunum í Eyjafjallajökli. Umtalsvert öskufall hafi verið í Vestmannaeyjum síðasta sólarhringinn og öskufjúk nú í bænum. Almannavarnarnefnd Vestmannaeyja bendir fólki á að unnt er að nálgast rykgrímur á lögreglustöðinni. Þá er unnt að nálgast grímur á Heilsugæslunni á opnunartíma.



Bændur brynni dýrum vel


Búfjáreigendum er bent á að brynna búfénaði vel í þessu ástandi og þeir sem eiga þess kost að gefa fénaði sínum á húsi geri það fremur en að beita á haga. Almannavarnarnefndin bendir fólki á að afla sér upplýsinga um áhrif öskufalls á fólk og búfénað á heimasíðu landlæknis og matvælastofnunar. Fólki með öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt að halda sig innandyra á meðan ösku gætir í andrúmslofti og í miklu öskufalli eða fjúki er það besta ráðið fyrir alla að vera ekki utandyra að óþörfu til að forðast óþægindi. Bílstjórum er bent á að aka rólega um bæinn til þess að þyrla ekki upp ösku að óþörfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×