Fastir pennar

Grikklandsfárið

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Grikkland er á hausnum. Það eru ekki nýjar fréttir. Grikkland hefur oft áður verið á hausnum. Hins vegar er látið í það skína í umræðum hér á Íslandi að í þetta sinn séu örlög Grikkja því að kenna að þeir tóku upp evruna. Ef þeir væru svo heppnir að hafa sinn gamla gjaldmiðil, drökmuna, væru þeir á leið út úr kreppunni, svona eins og Íslendingar, sem eru svo heppnir að hafa krónuna. Þess í stað verði þeir nú að sæta því að Evrópusambandið kúgi þá til að skera niður ríkisútgjöld og lækka laun opinberra starfsmanna. Þannig sé Grikkland Íslandi víti til varnaðar. Kreppa Grikklands er hins vegar ekki evrunni að kenna, nema þá að einu leyti. Aðild að Efnahags- og myntbandalaginu lækkaði fjármagnskostnað grískra stjórnvalda, sem fyrir vikið leyfðu sér enn meiri lántökur fyrir hönd ríkissjóðs en ella.

Kreppa Grikklands orsakast fyrst og fremst af agaleysi við stjórn ríkisfjármála, sem hefði haft alvarlegar afleiðingar hvort sem Grikkland notaði evru eða drökmu. Fjármálakreppan kom illa við ríkissjóð Grikklands eins og annarra ríkja, en Grikkir stóðu verr að vígi en margir aðrir vegna þess að þeir höfðu þanið út ríkisútgjöldin langt umfram efni.

Vandi Grikklands fær meiri athygli nú en oft áður, vegna þess að nú er hann vandi alls evrusvæðisins. Myntbandalagið byggist ekki sízt á því að öll ríkin, sem eiga aðild að því, sýni aga og ábyrgð við efnahagsstjórn. Grikkir vissu að hverju þeir gengu þegar þeir sóttust eftir aðild að myntbandalaginu - jafnvel þótt stjórnvöld hafi hagrætt hagtölunum til að komast inn í það. Sáttmálar Evrópusambandsins kveða á um að aðildarríkin taki sjálf á heimatilbúnum vanda. Annars gætu stjórnmálamennirnir, sem vilja kaupa sér vinsældir til skamms tíma með hallarekstri á ríkissjóði og lántökum, alltaf treyst á að önnur ríki ESB kæmu þeim til bjargar. Tilhneiging stjórnmálamanna til atkvæðakaupa er alþjóðlegt vandamál og rökrétt að reyna að finna á því alþjóðlegar lausnir.

Mótmælin á götum Aþenu eru að mörgu leyti skiljanleg, því að fólk hefur vanizt því að stjórnvöld láti undan kröfum um ríkisútgjöld. En kröfurnar um að horfið verði frá niðurskurði og launalækkunum eru í raun kröfur um að gömlu óráðsíunni verði haldið áfram.

Einn af þeim kostum sem margir sjá við að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evruna er meiri agi við hagstjórnina. Stjórnvöld ættu þá ekki lengur þann kost að fella gengið til að bregðast við efnahagsvanda. Þeir sem nú vorkenna Grikkjum, Írum og fleiri evruríkjum að geta ekki fellt gengið og neyðast til að skera niður ríkisútgjöld og lækka laun, gleyma því að gengis-felling er bara önnur og ekki alveg jafnaugljós aðferð til að skerða lífskjör fólks.

Þrátt fyrir að hafa eigin gjaldmiðil, sem hefur hrapað í verði og þannig valdið harkalegri lífskjaraskerðingu, hafa Íslendingar neyðzt til að grípa líka til beinna launalækkana, skattahækkana og niðurskurðar á ríkisútgjöldum, sem raunar sér ekki fyrir endann á. Erum við þá betur sett en Grikkir?













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×