Handbolti

Rhein-Neckar Löwen vann Íslendingaslaginn á móti Hannover

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson byrjar vel með Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson byrjar vel með Rhein-Neckar Löwen. Mynd/DIENER

Róbert Gunnarsson skoraði 4 mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann 36-28 sigur á Hannover-Burgdorf í uppgjöri Íslendingaliða í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Þetta var sannkallaður Íslendingaslagur enda fimm íslenskir leikmenn og tveir þjálfarar í aðalhlutverki í SAP-höllinni í Mannheim.

Þetta var fyrsti deildarleikur Rhein-Neckar Löwen undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar en Aron Kristjánsson er á sínu fyrsta ári sem þjálfari Hannover-Burgdorf. Rhein-Neckar Löwen vann 31-30 sigur á Barcelona um helgina og er Guðmunudur því að byrja mjög vel með liðið.

Ólafur Stefánsson komst ekki á blað hjá Rhein-Neckar Löwen en markahæsti leikmaður liðsins var Pólverjinn Grzegorz Tkaczyk með 9 mörk. Uwe Gensheimer, Bjarte Myrhol og Ivan Cupic skoruðu allir 6 mörk.

Vignir Svavarsson skoraði 6 mörk fyrir Hannover-Burgdorf, Hannes Jón Jónsson var með 5 mörk og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 1 mark.

Þórir Ólafsson skoraði 4 mörk fyrir TuS N-Lübbecke sem tapaði 40-27 fyrir HSV Hamburg á útivelli en íslenski Daninn Hans Lindberg skoraði 10 mörk fyrir Hamburg. Þórir klikkaði á einu víti í leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×