Ólafur Rafnsson og fulltrúar KKÍ á ársþingi FIBA Europe áttu sérstakt útspil þegar þingið var sett í morgun en Ólafur er eins og menn vita í framboði til forseta FIBA Europe og keppir þar við Turgay Demirel, forseta tyrkneska körfuknattleikssambandsins og varaforseta FIBA Europe.
Við upphaf þingfundar gáfu fulltrúar KKÍ öllum þingfulltrúum gjöf til að kynna enn frekar framboð Ólafs. Vakti gjöfin mikla athygli og ánægju þingfulltrúa samkvæmt frétt á heimasíðu KKÍ en gjöfin samanstóð af hraunmola úr Eyjafjallajökli á árituðum platta.
Allir þingfulltrúar hafa orðið varir við afleiðingar gossins í Eyjafjallajökli á undanförnum vikum og þótti mikið til þess koma að fá að gjöf hraunmola sem sérstaklega voru sóttir af þessu tilefni.
Kosning til forseta FIBA Europe fer fram á morgun laugardag og ættu úrslit að liggja fyrir um kl. 12 að íslenskum tíma. Í framboði er auk Ólafs, Turgay Demirel forseti tyrkneska körfuknattleikssambandsins og varaforseti FIBA Europe.
