Handbolti

Júlíus: Sóknarvandræði frá upphafi til enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari.
Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari. Mynd/Ole Nielsen
Það var dauft hljóðið í Júlíusi Jónassyni landsliðsþjálfara eftir leikinn gegn Rússlandi á EM í handbolta í kvöld. Ísland tapaði, 30-21, og er úr leik á EM.

„Það sem stendur upp úr eftir þennan leik að við gerðum of mörg mistök. Allt of margir tæknifeilar og við klikkuðum á mörgum dauðafærum. Við vorum svo í vandræðum í sókninni allan leikinn," sagði Júlíus.

Ísland átti frábæran leikkafla í fyrri hálfleik þar sem liðið náði að breyta stöðunni úr 1-4 í 5-5 og Rússland tók leikhlé. Þá var mikið fagnað.

„Hann breytti þá varnaruppstillingunni sem okkur reyndist erfitt að eiga við. Okkur hafði gengið illa að vinna í okkur tvo varnarmenn í sókninni áður en sendingin kom og það gekk enn verr eftir það. Það var á brattann að sækja hjá okkur."



Úr leiknum í kvöld.Mynd/AP
„En þessi leikur eins og allir aðrir í mótinu hafa reynst okkur vel upp á framtíðina að gera. Liðið græðir mikið á mótinu. Við höfum lent í áföllum eins og önnur lið - leikmenn hafa ekki spilað samkvæmt eðlilegri getu og hafa síðan komið til baka. Berglind [Íris Hansdóttir, markvörður] gerði það í dag og það var mikilvægt fyrir okkur og ekki síst hana sjálfa."

„Ef ég lít á heildarmyndina þá eru stelpurnar sigurvegarar fyrir að hafa komist á þetta mót. Ég held að það sé óhætt að segja að í öllum þessum leikjum skein úr hverju andliti að þær voru að reyna að kalla sitt allra besta fram. Það gekk ekki alltaf eftir en það var alltaf reynt."

„Liðið barðist vel í þessum leik, alveg eins og gegn Svartfellingum. Það var aldrei gefist upp."

Júlíus sagði fyrir mót að hann myndi ekki stýra landsliðinu áfram en nú var hann ekki viss. „Ég veit það ekki, það verður bara að koma í ljós," sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×