Handbolti

Trefilov: Mun minnast á Júlíus í ævisögunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Evgeny Trefilov, þjálfari Rússlands.
Evgeny Trefilov, þjálfari Rússlands. Mynd/AFP
Evgeny Trefilov, þjálfari Rússlands, fór mikinn á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Íslandi í dag. Rússar unnu leikinn, 30-21.

Júlíus talaði fyrst á fundinum og sagði að Ísland hafi átt erfitt með rússnesku vörnina eftir að Trefilov breytti henni í 5+1.

„Ég vil þakka íslenska þjálfaranum fyrir að leikgreina okkar lið. Ég mun minnast á hann í ævisögu minni," sagði Trefilov.

Hann beindi svo spjótum sínum að eigin leikmönnum og sagði frammistöðu þeirra hafa verið hræðilega í leiknum.

„Ef þessir leikmenn væru að vinna í verksmiðju væri þeim ekki borgað fyrir vinnuframlagið," sagði hann meðal annars.

Hann ásakaði einnig blaðamenn um að gera sér lífið leitt. „Ég gæti svarað spurningum þeirra hvernig sem er. Ég gæti alveg eins barið hausnum mínum í þennan vegg."

En túlkurinn, hugguleg ljóshærð stúlka, var í náðinni hjá Trefilov. „Ég er ástfanginn af túlkinum mínum," sagði hann og brosti. Þessi sami túlkur hafði varla undan að endursegja orð hans á ensku eftir frægan blaðamannafund eftir tapleikinn gegn Svartfellingum fyrr í vikunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×