Handbolti

Sólveig Lára: Hefði viljað enn meiri baráttu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Sólveig Lára Kjærnested.
Sólveig Lára Kjærnested. Mynd/Ole Nielsen
„Mér fannst við gefast upp á tímabili og ég hefði viljað sjá enn meiri baráttu í liðinu, sérstaklega með alla þessa frábæru áhorfendur í stúkunni í kvöld," sagði Sólveig Lára Kjærnested eftir leikinn gegn Rússum í kvöld.

Ísland tapaði leiknum, 30-21, og er því úr leik á EM eftir að hafa tapað öllum sínum leikjum í riðlinum.

„Það er stórt hjarta í þessu liði en við hefðum getað gert enn betur með meiri baráttu," bætti hún við.

„Markverðirnir stóðu sig vel í dag, fyrst Berglind og svo Íris þegar hún kom inn. Það var bara sorglegt að við náðum ekki að nýta það betur. Staðan var 7-7 en þá kom 9-2 kafli og munurinn orðinn mikill. Það kom svo aftur baráttukafli í síðari hálfleik en þá var leikurinn bara farinn."

Hún segir að það sé erfitt að spila í alþjóðegum bolta, sérstaklega miðað við þann íslenska.

„Það var erfitt að taka þetta skref en nú erum við búnar að taka það. Það eru frábærir leikmenn í hverri einustu stöðu í þessum liðum og það má ekki gefa eftir í eina sekúndu. Það er auðvitað allt önnur reynsla en að spila í deildinni heima."

„Það myndi tvímælalaust hjálpa okkur að fá fleiri leikmenn í atvinnumennsku. Til dæmis má sjá gríðarlega miklar framfarir hjá Rut [Jónsdóttur] sem hefur nú verið úti í 2-3 ár. Við þurfum að koma fleiri stelpum út. Þær stelpur sem fá tækifæri til þess eiga að kýla á það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×