Viðskipti innlent

ÍLS hefur afskrifað 10,5 milljarða frá hruninu 2008

Í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008 hefur Íbúðalánasjóður (ÍLS) afskrifað 10,5 milljarða kr. vegna kaupa á skuldabréfum (8,5 milljarða kr.) og vaxtaskiptasamninga (2 milljarða kr.).

Þetta kemur fram í svari félags- og tryggingarmálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Guðlaugur spurði um stöðu Íbúðalánasjóðs.

Í svarinu segir að hvort tveggja, skuldabréfakaup og vaxtaskiptasamningar, var liður í lausafjár- og áhættustýringu sjóðsins og í samræmi við fjár- og áhættustýringarstefnu hans, en stefnan er samin út frá reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs.

Þá kemur fram að samtals nam nettótap sjóðsins vegna peningamarkaðssjóða um 288 milljónum kr. að teknu tilliti til ávöxtunar. Brúttótap sjóðsins nam um 325 milljónum kr.

Guðlaugur vildi m.a. vita hvort gert sé ráð fyrir frekari afskriftum af lánum og fjárfestingum Íbúðalánasjóðs? Ef svo er, hversu miklum og hvernig sundurliðast þær?

Í svarinu segir að Íbúðalánasjóður er sem stendur virkasti lánveitandinn á innlendum fasteignamarkaði og hefur ákveðnum skyldum að gegna í þeim efnum. Í vaxtaálagi sjóðsins er gert ráð fyrir afskriftum vegna útlána. Eðli málsins samkvæmt er nær óhjákvæmilegt að einhverjar afskriftir verði á hverjum tíma en umfang þeirra ræðst jafnan af stöðu efnahagsmála hverju sinni.

Gera má ráð fyrir að afskriftir vegna útlána verði í sögulegu hámarki næstu eitt til þrjú árin í samræmi við spár um framvindu efnahagsmála. Íbúðalánasjóður hefur í vinnslu viðskipta- og rekstraráætlun í tengslum við samkomulag stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem skal skilað til Fjármálaeftirlitsins. Niðurstöður þeirrar vinnu munu liggja fyrir ekki seinna en í árslok.

Í töflu sem fylgir með svarinu kemur fram að framlag í afskriftarsjóð hjá Íbúðalánasjóði hafa stóraukist á þessu og síðasta ári m.v. næstu átta ár þar á undan. Á fyrri part þessa árs hafa 1,5 milljarður kr. runnið í afskriftarsjóðinn og allt árið í fyrra var upphæðin 2,1 milljarður kr. Hinsvegar var upphæðin 807 milljónir kr. árið 2008 og 295 milljónir kr. árið 2007.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×