Viðskipti innlent

Bílar í stað eldri bíla, segir forstjóri Icelandair Group

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group segir að þeir bílar sem hafi bæst við bílaflota starfsmanna á þessu ári séu í nánast öllum tilvikum endurnýjun á leigusamningum og að bílarnir hafi komið í stað eldri bíla. Hann segist íhaldssamur og varfærinn stjórnandi þegar kemur að kjörum eins og bílafríðindum.

Fréttastofa greindi frá því í gær að frá júní á þessu ári og til þessa dags hefðu ellefu nýir bílar verið keyptir hjá Icelandair Group og dótturfélögum þess til handa starfsmönnum samkvæmt samantekt Stöðvar 2 úr Ökutækjaskrá. Eingöngu voru teknir saman jeppar og einkabílar starfsmanna, ekki vinnubílar eins og sendiferðabílar, pallbílar og smábílar. Þá var öllum nýjum bílum í Ökutækjaskrá fyrir júní 2010 sleppt í umfjölluninni og samantektin var eingöngu miðuð við það tímamark er Framtakssjóður Íslands fjárfesti í Icelandair Group.

Jafnframt sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í viðtali í gær að um hafi verið að ræða endurnýjun á leigusamningum sem hefðu fallið úr gildi og ýmist hafi menn náð að semja áfram um leigu eða kaup á bílunum. Hann hafnaði nýskráningum á bifreiðum.

Bílarnir endurnýjaðir

Í upplýsingum úr Ökutækjaskrá sem Stöð 2 hafði undir höndum var ekki sundurliðun á því hvort um tímabundna eign var að ræða, eða kaupleigu, en ekki voru gerðar athugasemdir við þá bíla sem höfðu bæst við og Stöð 2 hafði til umfjöllunar. Björgólfur Jóhannsson lét hins vegar gera sérstaka athugun á þeim bílum sem fjallað var um og segir að komið hafi í ljós að í flestum tilvikum hafi verið um endurnýjun á kaupleigusamningum að ræða. Hann segist sjálfur varfærinn stjórnandi þegar komi að fríðindum af þessu tagi og áréttar að engin tengsl séu milli þess að Framtakssjóður Íslands keypti í félaginu og endurnýjuðum bílafríðindum starfsmanna. „Þetta er í öllum tilvikum þannig að við erum að endurnýja bíla, ýmist erum við að semja við kaupleigurnar um áframhaldandi leigu og eða kaup. Eða við erum að endurnýja bíla sem voru að renna út á kaupleigu. Reyndar hefur sá markaður breyst mikið og erfitt við að eiga. En það eru engir nýir bílar keyptir hér inn og það er engin fjölgun á bílum. Það sem meira er að rekstrarkostnaður er hér að lækka hvað varðar eignarhaldskostnað og slíkt," segir Björgólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×