Innlent

Fullnægjandi lyktir í máli Geirs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Prestafélagið ætlar að funda um kynferðisbrotamál á mánudag.
Prestafélagið ætlar að funda um kynferðisbrotamál á mánudag.
Niðurstaða fundar Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, og Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti, í morgun er fullnægjandi að mati Guðbjargar Jóhannesdóttur, formanns Prestafélags Íslands. Geir hafði verið gagnrýndur fyrir að segja í blaðagrein að hann teldi þagnaskyldu presta vera algera. Eftir fund hans og biskups í morgun lýsti sá síðarnefndi því yfir að Geir myndi hlýða tilkynningaskyldu.

Guðbjörg telur að Geir hafi verið búinn að skýra mál sitt á fullnægjandi hátt í blaðagrein sem hann birti í Morgunblaðinu strax eftir helgi. „Hann hefur lýst því yfir að sannarlega muni hann fara að landslögum og hlíta ákvæðum barnaverndarlaga. Geir hefur hlýtt lögum hingað til og mun gera það áfram eins og hann sagði og það eru engar vísbendingar um að hann hafi brotið af sér með neinum hætti," segir Guðbjörg.

Guðbjörg segir að Prestafélagið muni halda áfram að fjalla um kynferðisbrotamál. Haldinn verði almennur fundur í Prestafélaginu á mánudag þar sem slík mál verði rædd, einkum mál Ólafs Skúlasonar. „Svo munum við líka ræða það í hvaða farveg félagsfólk í Prestafélaginu telur að þetta verði að fara. Því að öll gerum við okkur grein fyrir því að það þarf að gera þetta mál upp með einhverjum hætti," segir Guðbjörg. Guðbjörg telur að það sé alger stuðningur við það að skipa sérstaka sannleiksnefnd um mál Ólafs Skúlasonar. Hins vegar eigi enn eftir að finna út úr því hvernig slík nefnd verði útfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×