Innlent

Sýning ása í þrot og Eden mun opna á ný

Sýning byggð á germanskri heimsmynd og ásatrú var opnuð í júlí í fyrra og nafni Eden breytt í Iðavelli. Útlit er fyrir að Eden-nafnið verði tekið upp aftur.
Sýning byggð á germanskri heimsmynd og ásatrú var opnuð í júlí í fyrra og nafni Eden breytt í Iðavelli. Útlit er fyrir að Eden-nafnið verði tekið upp aftur.

Rekstur ásatrúarsýningar í húsnæði Eden í Hveragerði er kominn í þrot og starfseminni var hætt fyrir nokkru.

Sparisjóður Suðurlands tók Eden-byggingarnar upp í skuldir í júlí 2008. Frá því í fyrra hafa Dulheimar ehf. rekið þar sýningu um ásatrú, goðheima og forna heimsmynd germanskra manna. Félagið hafði í janúar 2008 fengið vilyrði bæjaryfirvalda fyrir lóð undir Hamrinum í Hveragerði fyrir um fjögur þúsund fermetra byggingu undir skemmti- og fræðslugarð um ásatrúna. Opna átti nýja setrið vorið 2010 undir nafninu Auga Óðins. Áætlanir um uppbygginguna voru stórar. Meðal annars áttu tugir Hvergerðinga að fá atvinnu í setrinu.

Úr varð að Auga Óðins fór í smækkaðri mynd inn í Eden í júlí í fyrra undir nafninu Iðavellir. Sett var upp sýning í gróðurhúsahlutanum og minjagripa- og veitingasala var í fremri hlutanum eins og verið hafði.

„Þetta er skemmtileg hugmynd og spennandi ábót á mannlífið hér,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, við Fréttablaðið þegar áformin um að opna í Eden voru ljós. „Að sjálfsögðu verða allar hugmyndir kristinna manna um upphaf tilverunnar afmáðar svo Eden-nafnið verður að sjálfsögðu að víkja,“ sagði Guðbrandur Gíslason hjá Dulheimum.

Pétur Hjaltason, sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Suðurlands, segir að nú standi yfir viðræður við væntanlegan nýjan leigutaka. Vonast sé til að aftur verði hægt að hefja rekstur í húsinu seinni partinn í maí.

„Það eru aðilar að taka þetta á leigu sem ætla sér að vera þarna með rekstur sem verður ekki ósvipaður því sem Eden var áður,“ segir Pétur. „En það er ekki í hendi fyrr en það er í hendi,“ ítrekar hann.

Eins og áður segir eignaðist Sparisjóður Suðurlands Eden í júlí 2008 vegna skulda fyrri eiganda. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins áttu Dulheimar að greiða yfir 1,6 milljónir króna á mánuði í leigu fyrir húsið og reyndist það félaginu of stór biti.

„Það er allt skellur,“ svarar Pétur sparisjóðsstjóri aðspurður hvort viðskiptin með byggingarnar hafi reynst mikill skellur fyrir sparisjóðinn. Guðbrandur Gíslason hjá Dulheimum vildi í gær ekki tjá sig um afdrif Iðavalla og hugsanlegt framhald starfseminnar.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×