Viðskipti innlent

Varði krónuna falli

Krónan styrktist í dag og er hún nú á svipuðu gengi og á mánudag eftir gengiskúf um miðja vikuna.Fréttablaðið/Heiða
Krónan styrktist í dag og er hún nú á svipuðu gengi og á mánudag eftir gengiskúf um miðja vikuna.Fréttablaðið/Heiða

Gengi krónunnar styrktist um 1,07 prósent á millibankamarkaði í gær og endaði gengisvísitalan í 231,7 stigum. Vísitalan var í gær á svipuðum slóðum og á mánudag eftir snarpan kúf um miðja vikuna.

Hæst fór vísitalan yfir 236 stig innan dags á miðvikudag og ekki varð ljóst fyrr en í gær að ótti manna um frekari veikingu krónunnar vegna gjalddaga á ríkisbréfum í gær hefði verið ástæðulaus í bili.

Velta með krónur á millibankamarkaði var um þrefalt meiri en á venjulegum degi og skýrist að hluta af ívið meiri inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í því augnamiði að styðja við krónuna.

Vaxtagreiðsla ríkisbréfanna á gjalddaganum nam um þremur milljörðum króna, sem búist er við að fari fljótlega úr landi. Hert eftirfylgni Seðlabankans með gjaldeyrishöftunum gerir það hins vegar að verkum að fjárfestar þurfa að sýna fram á að þeir hafi átt ríkisbréfin í ár áður en hægt er að senda fjármagnið utan. Slíkt gæti tekið nokkra daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×