Kona nokkur í Philadelphia hefur sakað Marko Jaric, leikmann Memphis Grizzlies í NBA-deildinni, um kynferðislega árás. Hið meinta atvik á að hafa átt sér stað þegar Memphis var að spila í Philadelphia.
Talsmaður Grizzlies vildi ekki tjá sig um málið.
Þessi uppákoma á eflaust ekki eftir að vekja mikla lukku á heimili Jaric sem giftist kærustu sinni til margra ára í síðasta mánuði. Sú heitir Adriana Lima og er eitt þekktasta ofurmódel heimsins.
Jaric er 30 ára gamall og hefur leikið í NBA-deildinni í sjö ár. Hann var valinn af LA Clippers í nýliðavalinu en fór þaðan til Minnesota Timberwolves. Þaðan fór hann svo til Memphis í júní.
Hann hefur ekki beint verið að fara á kostum á þessari leiktíð með aðeins 1,8 stig að meðaltali í leik ásamt því að setja niður aðeins 27 prósent skota sinna.