Innlent

Dæmdir fyrir kannabisræktun

Frá Héraðsdómi Reykjaness.
Frá Héraðsdómi Reykjaness.
Þrír menn voru dæmdir fyrir fíkniefnalagabrot í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Tveir mannanna voru með kannabisplöntur í fórum sínum og hjá einum fannst haglabyssa undir rúmi. Tveir mannanna hlutu skilorðsbundinn dóm en sá þriðji var dæmdur í sekt.

Einn mannanna var tekin í mars á þessu ári með 0,51 grömm af kókaíni og 573 kannabisplöntur vörslum sínum. Maðurinn játaði brot sitt hreinskilnislega og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Hann var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi en sú refsing skal niður falla haldi hann almennt skilorð í tvö ár.

Annar var dæmdur fyrir að hafa í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 141 kannabisplöntu og hafa um nokkurt skeið ræktað greindar plöntur. Þess var krafist að ofangreindar plöntur sem og 63 málningarfötur, 81 múrbali og 12 gróðurhúsalampar sem notað var til framleiðslunnar yrði gert upptækt. Maðurinn játaði brot sín skýlaust. Hann var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og skal refsingin niður falla að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð.

Þriðji maðurinn var dæmdur fyrir að hafa í fórum sínum rúm fjögur grömm af maríhúana. Við húsleit heima hjá manninum fannst síðan haglabyssa undir rúmi sem og haglabyssuskot í kommóðu á heimili hans. Hann játaði brot sitt og var dæmdur til þess að greiða 350.000 krónur í sekt í ríkissjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×