Innlent

Nýtt framboð í burðarliðnum

Nýtt framboð gegn aðild að Evrópusambandinu og flokksræði er í burðarliðnum og fara þeir Bjarni Harðarson fyrrverandi Framsóknarþingmaður og séra Þórhallur Heimisson fyrir hópnum. Stefnt er að framboði á landsvísu.

Hátt í hundrað manna hópur vinnur nú að því að setja saman lista í öllum kjördæmum landsins fyrir næstu alþingiskosningar. Hópurinn stefnir að því að kynna nýtt framboð á blaðamannafundi í næstu viku. Meðal þeirra sem unnið hafa að undirbúningi framboðsins eru Helga Thorberg leikkona og Páll Vilhjálmsson blaðamaður.

Það mun einkum tvennt sem sameinar pólitíska sýn þessa hóps, annars vegar andstaðan við aðild að Evrópusambandinu.

Kristinn H. Gunnarsson sem sagði sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins nú í morgun hefur verið bendlaður við þetta nýja framboð. Kristinn vildi ekki staðfesta það í samtali við fréttastofu nú fyrir fréttir en sagði ekki útilokað að hann byði sig fram í næstu alþingiskosningum undir nýjum fána. Hann segir mikinn trúnaðarbrest við forystu flokksins ástæðu þess að hann yfirgefur Frjálslynda, allt frá því að hann vildi bjóða pólitíska flóttamenn velkomna til Akraness á síðasta ári - í andstöðu við formann, varaformann og miðstjórn flokksins. Sá ágreiningur dró dilk á eftir sér, segir Kristinn, auk þess sé mikil óvild milli manna í flokknum og erfitt að starfa við þær aðstæður.

Helga Thorberg, sem eitt sinn starfaði með Kvennalista og Kvennaframboði, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hún liti á það sem þegnskylduvinnu nú að taka þátt í pólitík. Í næstu kosningum þurfi að bjóða þjóðinni upp á eitthvað annað en þá flokka sem hafi skilið okkur eftir á köldum klaka.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.