Viðskipti innlent

Málaferli tefja innborganir á höfuðstól Icesave-skuldar

Engar innborganir úr þrotabúi Landsbankans munu berast inn á höfuðstól Icesave lánsins vegna málshöfðunar hollenskra innistæðueigenda á hendur íslenska ríkinu.

Vaxtakostnaður ríkisins vegna Icesave samkomulagsins gæti að óbreyttu numið 200 til 300 milljörðum króna þegar upp er staðið. Næstu ár verða notuð til að selja eignir landsbankans og vonast ráðmenn til þess að hægt verði smám saman að greiða niður höfuðstól lánsins og minnka þannig vaxtabyrði.

Fyrirsjáanleg málshöfðun hollenskra innistæðueigenda á hendur íslenska ríkinu gætu hins vegar lokað á þann möguleika. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Það kom skýrt fram á fundi fjárlaganefndar með skilanefnd landsbankans og slitastjórninni að þeir hefðu fullt forræði á málinu. Og þeir ætluðu ekki að greiða út til kröfuhafa fyrr en þeir væru búnir að fara í gegnum öll dómsmálin.

Þetta þýðir að eignir landsbankans verða ekki notaðar til að greiða niður höfuðstól fyrr en í fyrsta lagi eftir nokkur ár. Málið mun væntanlega fara í gegnum öll dómstig hér á landi og líklega alla leið til mannréttindadómstólsins í Strassburg.

Fjallað hefur verið um Icesave samkomulagið í þremur þingnefndum undanfarna daga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins segir að miðað við það sem hefur komið fram, þó ekki væri nema síðustu daga á nefndarfundum, þá þætti sér hreinlega óviðeigandi og stórundarlegt að stjórnvöld reyndu ennþá að halda því fram að það ætti að staðfesta þennan samning.

Skýrsla bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya sem gerð var opinber í gær hefur vakið mikla reiði meðal stjórnarandstöðunnar sem sakar ríkisstjórnina um að leyna gögnum í málinu.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir þetta vera svik við þingið. Hrein og klár svik við þingið að halda til hliðar gögnum eins og þessum sem ganga þvert á þær forsendur sem að frumvarpið byggir á.

Þessu vísa stjórnarþingmenn á bug. Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkisnefndar segir að þessi skýrsla breyti engu. „Hún breytir engu að mínu mati og þau atriði sem þarna koma fram voru löngu þekkt á þeim tímapunkti," segir Árni Þór.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×