Erlent

Framtíð Boston Globe óljós

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ekki er útilokað að dagblaðið Boston Globe hætti að koma út frá og með deginum í dag vegna fjárhagsvandræða.

Fundarhöldum yfirmanna blaðsins með fyrirsvarsmönnum stéttarfélaga þeirra sem þar starfa lauk án endanlegrar niðurstöðu en móðurfélag Boston Globe, The New York Times Co., hafði veitt frest til miðnættis í gær til að ganga frá útfærslu 20 milljóna dollara niðurskurðar sem nauðsynlegur er til að halda blaðinu á floti.

Boston Globe hefur mesta útbreiðslu dagblaða í þeim sex ríkjum í norðausturhorni Bandaríkjanna sem ganga undir heitinu Nýja-England og var stofnað af sex kaupsýslumönnum árið 1872. Útgáfufyrirtæki New York Times keypti blaðið árið 1993 en undanfarin misseri hefur hallað ört undan fæti hjá Boston Globe og náist ekki fyrrnefndur 20 milljóna dollara niðurskurður má ætla að dagar blaðsins séu taldir.

Ljóst er að segja þarf upp fjölda manns sem í sumum tilfellum er hægara sagt en gert því nokkur þeirra stéttarfélaga sem koma að blaðinu hafa samið um æviráðningu síns fólks. Framtíð blaðsins skýrist væntanlega í dag eða á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×