Viðskipti innlent

Skilanefnd Glitnis: Niðurstaðan vegna Sjóvár sú besta í stöðunni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Höfuðstöðvar Sjóvár
Höfuðstöðvar Sjóvár
Skilanefnd Glitnis hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að niðurstaða samninga sem losuðu Sjóvá undan greiðsluskyldu vegna fasteignakaupa í Macau hafi verið sú besta sem unnt var að ná að teknu tilliti til allra aðstæðna. Ástæða tilkynningarinnar er fréttaflutningur fjölmiðla um sölu Sjóvár á fasteigninni í Macau.

Þar kemur jafnframt fram að engin erindi eða gögn hafi borist skilanefndinni frá Þresti Jóhannssyni eða fyrirtæki hans, Cosamajo í Hong Kong. Skilanefndin hafi kannað það sérstakleag í dag eftir ummæli Þrastar í Morgunblaðinu í morgun. Haft var eftir Þresti í Morgunblaðinu að einfalt hefði verið að ná mun hagstæðari samningum um fasteignirnar en nú liggja fyrir og að þeim sem unnu að málinu fyrir Glitni hafi ítrekað verið sendar upplýsingar og ábendingar um hvernig það væri hægt.

Þá liggi fyrir að hvorki Þröstur né Cosamajo hafi haft samband við SJ-fasteignir, sem er formlegur umsjónaraðili fjárfestingaverkefnisins.

Að lokum segir í tilkynningunni: „Skilanefnd Glitnis hefur lagt á það áherslu á að ljúka þessu máli á farsælan hátt með hagsmuni Sjóvár og kröfuhafa Glitnis að leiðarljósi. Hefur Skilanefndin byggt ákvörðun sína á öllum fyrirliggjandi gögnum í málinu þ.á.m. matsskýrslum margra erlendra ráðgjafa sem hafa mikla sérþekkingu á málinu."

Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér að neðan.






Tengdar fréttir

Riftunarkostnaður innifalinn í 3,2 milljarða tapi

Tryggingar almennings hækka ekki þrátt fyrir mikið tap Sjóvár á fjárfestingu í lúxusíbúðum. Tapið nemur 3,2 milljörðum og er riftunarkostnaður á samningu við kínverskan verktaka innifalinn í því tapi að sögn forstjóra félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×