Viðskipti innlent

Riftunarkostnaður innifalinn í 3,2 milljarða tapi

Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár.
Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár.

Tryggingar almennings hækka ekki þrátt fyrir mikið tap Sjóvár á fjárfestingu í lúxusíbúðum. Tapið nemur 3,2 milljörðum og er riftunarkostnaður á samningu við kínverskan verktaka innifalinn í því tapi að sögn forstjóra félagsins.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag hafa Sjóvá-Almennar samið við kínverska verktakafyrirtækið Shun Tak um að rifta kaupsamningi um 68 lúxusíbúðir í háhýsi í Macau, í grennd við Hong Kong. Það var Milestone, sem átti Sjóvá, sem upphaflega samdi við Shun Tak fyrir tveimur árum.

Samanlagt átti að greiða 100 milljónir dollara fyrir lúxusíbúðirnar, eða um 13 milljarða króna. Búið var að greiða um þriðjunginn af þeirri upphæð en restina, 70 milljónir dollara átti að greiða fyrir árslok.

Með riftunarkostnaði þá tapar Sjóvá um 3,2 milljörðum króna á þessari fjárfestingu sem Hörður Arnarson, nýr forstjóri Sjóvár, segir hafa verið að fullu fært inn í ársuppgjör síðasta árs. Hörður sagði í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegi að tryggingar almennings hjá Sjóvá hefðu ekki og myndu ekkert hækka vegna þessa taps. Hins vegar hafi allir hluthafar tapað sínum hlut. Nú sé unnið að stofnun nýs tryggingafélags Sjóvár - sem verði stofnað á næstu vikum - og verður tryggingahlutinn þá aðskilinn frá fjárfestingarhlutanum.

Fleiri fjárfestingar á borð við lúxusíbúðirnar í Macau við Hong Kong eru ennþá inni í Sjóvá en þær verða skildar eftir í gamla félaginu sem mun eingöngu verða fjárfestingafélag. Hörður segir það varnarsigur að ná að losna undan þessum samningi og verið sé að selja íbúðirnar á um 75% af þeim kostnaði sem Sjóvá hafði lagt í fjárfestinguna. Það sé vel sloppið nú þegar erfitt sé að selja fasteignir um allan heim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×