Viðskipti innlent

Kaupþingsforstjórar með kúlulán

Kaupþingsforstjórarnir fyrrverandi, þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, voru árið 2006 með lán hjá Kaupþingi upp á samtals 5,4 milljarða króna. Þetta kemur fram í DV í dag en blaðið hefur lánabók bankans frá þessum tíma undir höndum.

Lánin voru, eins og önnur kúlulán starfsmanna bankans sem fjallað hefur verið um, notuð til hlutabréfakaupa í bankanum. Hreiðar Már var með sitt lán, 2,7 milljarða, í hlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. Sigurður er hins vegar skráður persónulega fyrir sínu láni sem er upp á 2,6 milljarða. Blaðið bendir á að þeir Sigurður og Hreiðar hafi samkvæmt lánabók bankans verið í öðru og þriðja sæti á lista í lánabókinni sem merktur er „Stærsta áhættutaka gagnvart lögaðilum." Í fyrsta sæti á þeim lista með lán upp á 4,5 milljarða er fyrirtækið UK Fisheries Ltd. sem er dótturfélag Samherja.

Í DV er einnig bent á að Hreiðar Már Sigurðsson ehf. hafi samkvæmt ársreikningi félagsins 2007 verið skráð fyrir hlutum í Kaupþingi sem námu 6,4 milljörðum króna og því sé ljóst að Hreiðar Már hafi fengið frekari lán í bankanum til hlutabréfakaupa. Ekki er hins vegar ljóst hvort eða hve mikið Sigurður hafi fengið að láni til viðbótar frá 2006.

Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fékk einnig lán til hlutabréfakaupa í bankanum árið 2006, upp á 2,3 milljarða króna. Magnús er enn forstjóri Kaupþings í Lúxemborg sem nýlega var yfrtekið af fjárfestingasjóðnum Blackfish Capital.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×