Viðskipti innlent

Tveir í peningastefnunefnd vildu óbreytta stýrivexti

Svein Harald Oygard, Seðlabankastjóri, vildi lækka stýrivexti um 1% sem varð raunin.
Svein Harald Oygard, Seðlabankastjóri, vildi lækka stýrivexti um 1% sem varð raunin.

Tveir af fimm nefndarmönnum peningastefnunefndar Seðlabankans vildu halda stýrivöxtum óbreyttum í 13% við stýrivaxtaákvörðun bankans í byrjun júní mánaðar. Þrír nefndarmenn töldu ráðlegt að lækka stýrivexti um eitt prósent eins og raunin varð.

Ákvörðun Seðlabankans naut ekki mikilla vinsælda meðal almennings og atvinnulífsins en rökin fyrir ákvörðun nefndarinnar eru eftirfarandi;

Peningastefnunefnd skoðaði forsendur þess að losa gjaldeyrishöftin og taldi að yrði það gert of snemma gæti það stefnt stöðugleika krónunnar í tvísýnu. Samþykkt aðhaldsaðgerða í opinberum fjármálum til langs tíma og endurskipulagning bankakerfisins myndu styðja við uppbyggingu efnahagslífsins og draga úr hættu á verulegri gengislækkun í kjölfar afnáms gjaldeyrishaftanna.

Varfærin slökun peningalegs aðhalds í tengslum við aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum ætti að samrýmast afnámi gjaldeyrishafta án þess að stöðugleika krónunnar væri stefnt í tvísýnu. Þegar aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum til langs tíma hafa verið samþykktar, tvíhliða og marghliða lánasamningum sem styrkja gjaldeyrisforðann lokið og endurskipulagning fjármálageirans langt komin væri hægt að taka fyrstu skrefin að afnámi hafta seinna á þessu ári með því að gefa nýfjárfestingu frjálsa.

Í ljósi ofangreindrar umræðu ræddu nefndarmenn mögulega vaxtaákvörðun á bilinu frá óbreyttum stýrivöxtum til lækkunar um 2,0 prósentur og lækkunar innlánsvaxta um allt að 1,25 prósentur.

Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að stýrivextir yrðu lækkaðir um 1,0 prósentu í 12,0%.

Seðlabankastjóri bauð öðrum meðlimum peningastefnunefndarinnar að greiða atkvæði um tillöguna. Þrír nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjórans. Hinir tveir nefndarmennirnir greiddu atkvæði með því að halda stýrivöxtum óbreyttum. Allir nefndarmenn voru sammála um að innlánsvextir skyldu verða óbreyttir, 9,5%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×