Erlent

Morfín sagt örva krabbavöxt

Krabbameinsmeðferð Verkjastillandi morfín getur örvað vöxt krabbameinsfrumna. Nordicphotos/AFP
Krabbameinsmeðferð Verkjastillandi morfín getur örvað vöxt krabbameinsfrumna. Nordicphotos/AFP

Æ fleiri vísbendingar eru um að morfín, sem krabbameinssjúklingum er gefið til að lina verki, geti örvað vöxt og útbreiðslu krabbameinsfrumna.

Vísindamenn við læknadeild Háskólans í Chicago í Bandaríkjunum hafa nýverið birt niðurstöður rannsókna, sem sýna að morfín getur með beinum hætti bæði örvað frumuskiptinu krabbameinsfrumna og dregið úr ónæmisviðbrögðum líkamans gegn þeim. Þá getur morfín einnig örvað æðavöxt og myndun nýrra æða sem hjálpar krabbameinsfrumum að þrífast á nýjum stöðum í líkamanum.

Á fréttavef BBC er haft eftir Patrick Singleton, einum vísindamannanna í Chicago, að til sé lyf sem geti unnið gegn þessum áhrifum morfíns án þess að draga úr verkjastillandi áhrifum þess. Þetta lyf nefnist methylnaltrexone og var þróað fyrir um aldarfjórðungi til að vinna gegn hægðateppu, sem er ein af aukaverkunum morfíns. Í ljós hefur komið að sumir krabbameinssjúklingar sem fengu þetta lyf hafa lifað lengur en við var búist.

Niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnu í Boston í Bandaríkjunum í síðustu viku. Vísindamennirnir segja þó frekari rannsókna þörf áður en breytingar verði gerðar á meðferð krabbameinssjúkra. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×