Viðskipti innlent

Tveir til þrír erlendir aðilar hafa áhuga á að kaupa Sjóvá

Nokkur fjöldi hefur lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa Sjóvá og segir Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis að þar á meðal séu tveir til þrír erlendir aðilar. Stefnt er að því að setja Sjóvá í opið söluferli á næstunni.

Árni Tómasson segir að eins og staðan er nú sé stefnt að því að ljúka við söluna á Sjóvá fyrir áramótin..."enda er það ekki í okkar verkahring að reka tryggingarfélag fremur en önnur félög eða fyrirtæki," segir Árni.

Fram kemur í máli hans að nokkur tími er síðan menn fóru að lýsa yfir áhuga sínum á að kaupa Sjóvá. "Við ákváðum hinsvegar að bíða þar til endurskipulagningu á félaginu væri lokið eins og nú er," segir Árni.

Hvað varðar sjálft söluferlið verður það í því formi að auglýst verður eftir tilboðum í Sjóvá. Að því loknu verða bestu tilboðin tekin og skoðuð nánar og þeim tilboðshöfum boðið til framhaldsviðræðna um kaupin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×