Viðskipti innlent

Enn eitt breskt fyrirtæki með risatap af íslenskum bönkum

Enn eitt breskt fyrirtæki nefnir risatap af íslensku bönkunum í ársuppgjöri sínu. Þetta er járnsteypufyrirtækið Castings Plc sem tapaði 3,8 milljónum punda eða tæpum 800 milljónum kr. á innistæðum sínum í íslensku bönkunum í Bretlandi.

Samkvæmt ársuppgjöri Castings, á reikningsárinu sem lauk í lok mars s.l. segir að hagnaður fyrirtækisins hafi hrapað niður í 3,6 milljónir punda fyrir skatta en hagnaðurinn árið áður nam 16,7 milljónum punda. Þetta er 78% minnkun á hagnaði milli ára.

Í frétt á Reuters um málið segir að auk afskrifa á innistæðum sínum í íslensku bönkunum hafi Castings orðið fyrir barðinu á fjármálakreppunni almennt eins og flest önnur bresk fyrirtæki. Þannig hafi Castings sagt upp þriðjungi starfsmanna sinna, eða 350 manns, á fyrrihluta þessa árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×