Viðskipti innlent

Rússar samþykkja lán til Íslands

Rússnesk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Íslandi lán upp á 500 milljónir dollara eða 64 milljarða kr. Þetta kemur fram á vefsíðuunni barentobserver.com.

Vefsíðan vitnar í frétt um málið í blaðinu Vedomosti þar sem aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands, Dimitry Pankin staðfestir að lánveitingin hafi verið ákveðin. Hinsvegar eru kjörin á láninu ekki ljós og að talsmaður íslensku stjórnarinnar hafi sagt að samningar séu enn í gangi.

Eins og fram hefur komið í fréttum kom lán frá Rússum fyrst til umræðu eftir bankahrunið s.l. haust er Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri tilkynnti að Rússar myndu lána Íslendingum 4 milljarða dollara. Sú tilkynning var síðan borin til baka.

Samninganefnd frá Íslandi hefur ítrekað verið í Moskvu til viðræðna um hugsanlegt lán frá Rússum. Upphæð lánsins hefur lækkað mikið frá fyrstu tilkynningu í haust enda eru Rússar sjálfir í verulegum efnahagsvandræðum.

Fram kemur í umfjöllun barentobserver.com að þótt Rússar hafi lítil efnahagsleg tengsl við 'island sé landið mjög áhugavert fyrir Rússa vegna legu þess. Þar að auki er talið að rússnesk fyrirtæki hafi fjárfest mikið í efnahagslífi Íslendinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×