Lífið

Ungur lögfræðingur gefur út sína fyrstu glæpasögu

Ragnar Jónasson fetar í fótspor Agöthu Christie með sinni fyrstu glæpasögu. fréttablaðið/valli
Ragnar Jónasson fetar í fótspor Agöthu Christie með sinni fyrstu glæpasögu. fréttablaðið/valli

„Ég vona að það sé pláss fyrir okkur bæði á markaðnum," segir lögfræðingurinn Ragnar Jónasson sem hefur gefið út sína fyrstu glæpasögu, Fölsk nóta. Bókin verður í harðri samkeppni fyrir jólin við nýja glæpasögu Agöthu Christie sem Ragnar sá einmitt sjálfur um að þýða.

Hann var aðeins sautján ára þegar hann þýddi sína fyrstu Agöthu Christie-bók og síðan hafa þrettán fylgt í kjölfarið. Það er samt ekki fyrr en núna sem hinn 33 ára Ragnar fetar í fótspor átrúnaðargoðsins. Spurður hvort hann skjóti Agöthu ekki ref fyrir rass með nýju bókinni er fátt um svör. „Það verða aðrir að dæma um það. Hún er drottningin og það er erfitt að bera sig saman við hana. Hún er mikill snillingur."

Þrátt fyrir að lifa og hrærast í heimi lögfræðinnar þar sem mörg spennandi mál rekur á fjörur hans segist Ragnar hafa lítinn áhuga á að skrifa spennusögur í anda bandaríska metsöluhöfundarins og lögfræðingsins Johns Grisham. „Maður reynir að skrifa um allt annað en vinnuna til að fá meiri tilbreytingu. Maður lítur helst á þessa bresku og íslensku glæpasagnahöfunda sem fyrirmyndir."

Fölsk nóta fjallar um Ara Þór Arason sem fær himinháan greiðslukortareikning frá enskum banka sem virðist hafa átt að berast föður hans og alnafna sem hvarf með dularfullum hætti. Ragnar fékk hugmyndina að bókinni þegar hann var staddur í flugvél fyrir þremur árum. „Ég gaf mér ekki mikinn tíma í þetta fyrr en um jólin 2007. Þá hvatti konan mín mig til að halda áfram og drífa í þessu," segir Ragnar.

Hann segir að áhuginn á glæpasögum Agöthu Christie hafi kviknað þegar hann var tólf ára. „Ég fór að þýða smásögur eftir hana á unglingsárunum og nokkrar birtust í Vikunni. Svo fékk ég þá flugu í höfuðið hvort ég gæti ekki þýtt eina bók eða svo. Ég spurði hvort það vantaði þýðanda og þau hringdu í mig nokkrum mánuðum síðar og gáfu mér tækifæri."

Ragnar segir það tvennt ólíkt að þýða og skrifa sína eigin sögu. „Þegar maður er að þýða er þægilegt að vera með handritið fyrir framan sig en í hinu er maður með autt blað og það getur reynt svolítið á." Þrátt fyrir að vilja ekki líkja sér við Agöthu er eitt líkt með vinnubrögðum þeirra tveggja: „Ég reyni að hafa óvæntan endi. Við eigum það sameiginlegt. Ég reyni að leiða lesendur á villigötur þangað til í seinasta kaflanum. Þá kemur hið sanna í ljós."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.