Innlent

Æpandi ósamræmi í nauðgunarmálum

„Stundum finnst mér að sönnunarbyrðin sé óendanlega mikil,“ segir Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta.
„Stundum finnst mér að sönnunarbyrðin sé óendanlega mikil,“ segir Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta. Mynd/Auðunn Níelsson
Af þeim 200 nauðgunarmálum sem koma inn á borð Stígamóta á ári hverju, fara fimm þeirra í gegnum héraðsdóm. Talskona Stígamóta segir konur ætla að bregðast við þessu á næsta ári og krefjast þess að konur sem séu beittar ofbeldi verði teknar alvarlega.

Líkt og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi enda aðeins 2% þeirra nauðgunarmála sem koma inn á borð Stígamóta og Neyðarmóttöku með sakfellingu. Það þýðir einn dómur fyrir hverjar 52 tilkynntar nauðganir.

Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta segir samtökin fást við um 200 nauðganir á ári, en að meðaltali fari fimm nauðgunarmál í gegnum héraðsdóm á sama tíma.

„Þetta er líka ástæðan fyrir því að konur ætla á næsta ári aðsnúa bökum saman og gera eitthvað í þessum málum og krefjast þess að konur sem eru beittar ofbeldi séu teknar alvarlega."

Guðrún segir að ef ástandið núna sé borið saman við það sem var fyrir 20 árum, þegar Stígamót voru stofnuð, hafi margt jákvætt gerst og breytingar á lögum séu jákvæðar. Hinsvegar þurfi að fylgja eftir þessum lögum, en mögulega hafi kærum fjölgað vegna þeirrar vitundarvakningar sem hafi orðið.

En er er eitthvað í dómskerfinu sem betur mætti fara? „Það verður því miður alltaf þannig að þó að við hefðum heimsins bestu lög og heimsins bestu rannsóknarlögreglu og heimsins bestu dómara þá verða þessi mál alltaf erfið. Það eru ekki vitni og það er ofast orð gegn orði. Stundum finnst mér að sönnunarbyrðin sé óendanlega mikil. Það er æpandi ósamræmi milli veruleikans en við notum fingur handanna til að telja þau mál sem fara í gegnum dómskerfið," segir Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×