Viðskipti innlent

Byr leggur niður póst, kúnnar spara 12.000 krónur

Frá og með mánaðamótunum júlí - ágúst hættir Byr sparisjóður að senda út með pósti yfirlit reikninga og kreditkorta ásamt greiðsluseðlum lána og kreditkorta. Viðskiptavinir Byrs fá eftir sem áður öll yfirlit rafrænt í gegnum heimabankann sinn.

Í tilkynningu um málið segir að þegar tekið er dæmi af viðskiptavini sem hingað til hefur fengið yfirlit launareiknings fjórum sinnum á ári, kreditkortayfirlit mánaðarlega og einn annan greiðsluseðil á mánuði, þá er hann með nýja fyrirkomulaginu, þ.e. að fá þessar upplýsingar eingöngu í heimabankann sinn, að spara sér um 12.000 krónur á ári.

„Sparnaðurinn sem af þessu hlýst er einnig í þágu umhverfisins því um talsverðan pappírssparnað er að ræða og pósturinn sem kemur inn um bréfalúguna minnkar. Pappírslaus viðskipti fela í sér bæði öruggari og einfaldari samskipti þar sem allar upplýsingar er að finna í heimbankanum sem viðskiptavinurinn einn hefur aðgang að," segir Atli Örn Jónsson, framkvæmdarstjóri Viðskiptabankasviðs hjá Byr.

Breytingin nær til einstaklinga og fyrirtækja en engin breyting verður á útsendum pósti til ólögráða einstaklinga. Þeir viðskiptavinir sem vilja halda áfram að fá yfirlit og greiðsluseðla á pappírsformi geta sótt um það á www.byr.is, í næsta útibúi Byrs eða með því að hringja í síma 575 4000.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×